Flökkusaga um tiltekt innan Sjálfstæðisflokksins.

Lítil frétt af starfi Sjálfstæðisflokksins vakti athygli mína í vikunni.
Ekki vegna þess sem skrifað var í fréttinni heldur vegna þess sem ekki var skrifað.

Ég á mikið af vinum í Sjálfstæðisflokknum og þar sem í fréttinni er minnst á mann sem ég þekki fannst mér rétt að athuga hvort tilfinning mín, um að ef til vill væri um stærri frétt að ræða, væri rétt. Hann var og þögull sem gröfin.
Þögnin sagði mér aðeins eitt - að meira byggi að baki en fréttin gæfi til kynna.

Ég hóf að spyrjast fyrir og í stuttu máli bar heimildarmönnum mínum öllum saman um það að um aðför gegn ESB-andstæðingum innan flokksins væri ræða. Jafnvel þó um flökkusögu sé að ræða finnst mér rétt að opinbera hana. Einkum vegna þess að mér finnst um persónulegar, ómaklegar og óheiðarlegar aðfarir að ræða. Sé um valdabaráttu að ræða innan Sjálfstæðisflokksins er gott að skoða hvernig völdum er farið í lögum flokksins.

"Um landsfund
7. gr.
Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum flokksins. Hann markar heildarstefnu flokksins í landsmálum og setur reglur um skipulag hans."
 
"8. gr.
Landsfundur skal haldinn annað hvert ár. Miðstjórn boðar og undirbýr landsfund. Heimilt er að boða til lands-fundar oftar ef miðstjórn telur brýna þörf krefja."

Síðasti landsfundur var haldinn í febrúar 2013 og ætti því næsti landsfundur að vera haldinn í febrúar á næsta ári . Þó er ekki útilokað að huglægt mat miðstjórnarmanna á túlkun 8. greinar, um brýna þörf kalli á landsfund fyrir þann tíma.

Setu á landsfundi eiga ýmsir sem sinna trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

"9. gr. Landsfundargögn, þ.á m. drög að landsfundarályktunum skulu vera tilbúin a.m.k. mánuði fyrir landsfund. Afhendir miðstjórn kjörgögn til þeirra, sem rétt eiga til setu á landsfundi, samkvæmt skriflegri yfirlýsingu formanns viðkomandi sjálfstæðisfélags, þess efnis, að fulltrúinn sé fullgildur til þátttöku á landsfundi, sbr. 8. gr.

Um val landsfundarfulltrúa gildir eftirfarandi:
I. Landsfundur skal í aðalatriðum skipaður í samræmi við tölu sjálfstæðiskjósenda í kjördæmum landsins, þannig:
a. Hvert kjördæmi hefur rétt til að velja þrjá fulltrúa fyrir hverja 200 kjósendur flokksins í síðustu alþingiskosningum í því kjördæmi og helmingsbrot þeirrar tölu eða meira.
b. Hvert sjálfstæðisfélag (ekki fulltrúaráð) hefur rétt til að velja þrjá fulltrúa á landsfund. Þegar í sjálfstæðisfélagi eru 200 fullgildir félagsmenn samkvæmt 35. gr. hefur það rétt til að velja fjóra fulltrúa og að auki einn fyrir hverja 200 fullgilda félagsmenn umfram þá tölu eða helmingsbrot hennar eða meira. Miða skal við fjölda fullgildra félagsmanna samkvæmt félagatali aðalfundar síðasta starfsárs á undan aðalfundi.

II. Kjördæmisstjórn skiptir þeim fjölda landsfundarfulltrúa, sem kjósa á eftir kjörfylgi flokksins, á milli fulltrúaráðs-umdæma eða félagssvæða, ef fulltrúaráð er ekki starfandi í umdæmi, í sem
nánustu samræmi við fylgi flokksins á hverjum stað. Verði ágreiningur um þessa skiptingu skal miðað við tölur fullgildra félaga í sjálfstæðisfélögum í hverju umdæmi á aðalfundi síðasta starfsárs fyrir landsfund. Vilji fulltrúaráð eða félag í umdæmi án fulltrúaráðs ekki una ákvörðun kjördæmisstjórnar, getur það krafist fundar í kjördæmisráði, sem hefur endanlegt úrskurðarvald um málið.

III. Ef stjórnir allra sjálfstæðisfélaga í sama fulltrúaráðsumdæmi gera samkomulag um skiptingu landsfundarfulltrúa samkvæmt kjörfylgi sín á milli, er fulltrúaráðsstjórn heimilt að fela þeim kosningu þeirra fulltrúa, allra eða að hluta, sem kjördæmisstjórn hefur úthlutað fulltrúaráðsumdæminu. Ef samkomulag næst ekki má skjóta ágreiningi um skiptingu fulltrúanna til fulltrúaráðsstjórnar og áfram til endanlegs úrskurðar kjördæmisstjórnar. Félög í umdæmi án fulltrúaráðs geta skotið ágreiningi um skiptingu landsfundarfulltrúa til endanlegs úrskurðar stjórnar kjördæmisráðs.

IV. Hvert sjálfstæðisfélag kýs þá landsfundarfulltrúa er því samkvæmt lið i. er heimilt að velja, en fulltrúaráðin velja þá landsfundarfulltrúa, sem kjósa á eftir kjörfylgi flokksins, að því marki, sem þau hafa ekki falið sjálfstæðisfélögum kosningu þeirra, sbr. Lið iii.
Kosning landsfundarfulltrúa skal ávallt fara fram á almennum fulltrúaráðs- eða félagsfundum og skal kosning-anna getið í fundarboði. Kosningarrétt og kjörgengi hafa aðeins fullgildir félagsmenn.

V. Skylt er félagi eða fulltrúaráði að kjósa á sama hátt og segir í lið iv. hæfilega marga varamenn landsfundarfull-trúa, sem taka sæti á landsfundi í forföllum aðalmanna þeirri röð, sem kosning þeirra segir til um. Stjórn kjördæmisráðs sker endanlega úr um fjölda varamanna fyrir hvert fulltrúaráð og/eða félag.

VI. Flokksráðsmenn eiga rétt til setu á landsfundi með fulltrúaréttindum. Varamenn flokksráðsmanna samkvæmt 13. gr. 2. mgr. taka sæti á landsfundi í forföllum aðalmanna."

Miðað við lög flokksins er töluvert mikilvægt að eiga sæti í hinum ýmsu félögum innan Sjálfstæðisflokksins til að eiga rétt á setu á landsfundi og hafa þar með atkvæðisrétt á landsfundinum. 

Ef heimildarmenn mínir hafa rétt fyrir sér um það að litla fréttin, sem ég las á dögunum, segi í raun frá upphafi aðfara gegn öllum ESB-andstæðingum innan flokksins þá er allt sem bendir til þess að til standi að útiloka þá frá setu og atkvæðisrétti á næsta landsfundi. Í þessu samhengi er rétt að líta á ályktun Sjálfstæðisflokksins frá síðasta landsfundi um Evrópusambandsmál. 

"Evrópa er eitt mikilvægasta markaðs- og menningarsvæði Íslands og því nauðsynlegt að tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins svo sem gert er á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Nýta ber þau margvíslegu tækifæri sem samningurinn veitir til að fylgja eftir hagsmunum Íslands gagnvart öðrum ríkjum Evrópu. Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu." 

Það er alls ekki ólíklegt að tilgáta heimildarmanna minna þess efnis að "tiltektin" innan flokksins sé gerð til að ná völdum í flokknum og hafa áhrif á málefnastefnu á landsfundi. Sé afstaða þeirra einstaklinga, sem nú þegar eiga í vanda innan flokksins svo og þeirra sem hafa verið nefndir í mín eyru að verði næstu fórnarlömb valdaklíkunnar, skoðuð er heldur ekki útilokað að tilgáta heimildarmannanna um aðför gegn ESB-andstæðingum sé rétt.

Meðal þess sem haldið var fram við mig er að lekamál Hönnu Birnu í Innanríkisráðuneytinu sé haldið við af þeim hópi sem nú fer gegn Ólafi Inga Hrólfssyni sem nefndur er í fréttinni sem ég vísaði til hér í upphafi. Athyglisvert er að skoða í því samhengi umræður á Alþingi um mál Hönnu Birnu og hvernig Hanna Birna hefur staðið nánast ein til andsvara í þeirri umræðu. Ég get ekki séð að samflokksmenn hennar hafi sýnt henni neinn stuðning ef frá er talin Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Það þarf ekki að vafra lengi til að sjá hver afstaða Hönnu Birnu er gagnvart Evrópusambandinu. Ég veit líka fyrir víst hver afstaða Ólafs Inga er í sama máli. Hún er samhljóma afstöðu Hönnu Birnu.

Heimildarmenn mínir halda því fram að næstur "undir fallöxi" valdaklíkunnar sé maður að nafni Óttar Örn Guðlaugsson. Mér tekst ekki að finna heimildir á vefnum um afstöðu hans til Evrópusambandsins en samkvæmt því sem mér er sagt er hann sömu skoðunar og Ólafur Ingi og Hanna Birna.

Ég spyr mig svo að því hvaða valdamenn innan Sjálfstæðisflokksins gætu verið að beita sér í þessum "hreinsunum" innan flokksins en af því að nafn Illuga Gunnarssonar var nefnt við mig í því samhengi ákvað ég að fá frekari stuðning af vafri á netinu. Eitt af því sem það skilaði mér var þessi sex ára frétt um þáverandi afstöðu þeirra Illuga Gunnarssonar, núverandi menntamálaráðherra og Bjarna Benediktssonar, núverandi fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í Fréttablaðinu.

"Tveir frammámenn Sjálfstæðisflokksins á þingi, Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, lýsa því yfir í Fréttablaðinu í dag að þeir vilji að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið og að innganga í sambandið verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Ég verð að viðurkenna að sé flökkusagan rétt er útlit fyrir að hér sé um sérlega klóka aðgerð að ræða. Aðgerð sem auðveldlega getur umbylt öllu á stjórnmálasviðinu með einni landsfundarályktun. Aðgerð sem getur kúvent þeirri niðurstöðu síðustu alþingiskosninga að meirihluti sitjandi þingmanna væri á móti Evrópusambandsaðild. Aðgerð sem getur komið Evrópusambandssinnum aftur til valda á Alþingi í gegn um tvo stóra flokka og einn eða fleiri minni til vara. Stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar hefði ekkert vægi ef þannig færi að þessi leikflétta næði fram að ganga.

Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hefur sýnt að hann tekur ályktanir flokksins alvarlega og vinnur eftir þeim ályktunum jafnvel þó skoðun hans sé í andstöðu við ályktun landsfundar. Það vekur sannarlega athygli að ekki er annað að sjá en tengdasonur hans sé þátttakandi í þeirri tiltekt sem hyllir undir í flokknum en þessi grundvöllur liggur að því sem snýr að opinberri afstöðu hans í málaflokknum innan núverandi ríkisstjórnar:

"Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu."

Sé eitthvað að marka orð götunar er spurning hvernig þetta mál muni fara með Sjálfstæðisflokkinn og stjórnarsamstarfið. Er Sjálfstæðisflokkurinn að stefna í stóran klofning? Er Sjálfstæðisflokkurinn að stefna í stjórnarslit núverandi stjórnar fyrir nýtt ástarsamband með Samfylkingu og Bjarta framtíð?

Það er spurning hvort þau innherjavíg sem eru að eiga sér stað innan flokksins sé skýringin á bak við þann gríðarlega fylgismun sem hefur verið að mælast á fylgi flokksins í Reykjavík annars vegar og öðrum sveitafélögum hins vegar.
Í Reykjavík mælist flokkurinn ekki með nema 25% fylgi samkvæmt síðustu skoðanakönnunum á meðan fylgi hans fer hæst í 62,2% eða í Vestmannaeyjum.

Yfirlestur var í höndum Rakelar Sigurgeirsdóttur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæl Addý.

Fróðleg og skemmtileg grein hjá þér.

En þó svo að ég trúi alveg að einhverjir svona undirmáls tilburðir séu í gangi innan Sjálfsstæðisflokksins hjá þessu ESB liði þá hef ég enga trú á að þessar sárafáu ESB hræður sem enn hanga utan í Sjálfsstæðisflokknum hafi erindi sem erfiði. Síðasta skoðanakönnun hlýtur að hafa valdið þessu ESB liði gríðarlegum vonbrigðum, ekki bara á hvað fylgisleysið við ESB aðild er napurt meðal þjóðarinnar.

Aðeins 26% þjóðarinnar hlynnt ESB aðild og aðeins 9% Sjálfsstæðismanna.

Andstaðan við ESB aðild er 16% hjá kjósendum Samfylkingarinnar sem að er samt rúinn öllu fylgi.

Gunnlaugur I., 9.2.2014 kl. 14:59

2 Smámynd: Rafn Guðmundsson

án þess að vita neitt um málefni xD þá fagna ég því að nei sinnum sé hent út. vonandi er 'flökkusagan' bara rétt og þá gæti ég kannski hugsað mér að kjósa flokkinn

Rafn Guðmundsson, 9.2.2014 kl. 15:04

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Mikið hefðir þú geta sparað þér í vangaveltum Addý mín ef þú hefðir kynnt þér Sjálfstæðisflokkinn innanfrá. Þá hefðir þú getað séð hversu fánýtt það er að segja sögur af Ólafi kóngi án þess að hafa heyrt hann né séð.

Flökkusögur er ekki gott veganesti í pólitík.Flokkur á hverjum tíma er aðeins fólkið sem í honum er. Það er Sjálfstæðisflokknum vegna þess að það trúir á Sjálfstæðisstefnuna eins og hún var sett fram 1929 og hefur aldrei verið breytt einum staf í henni. Ef fólkið í Reykjavík trúir á eitthvað annað þá er það þess mál.

Halldór Jónsson, 9.2.2014 kl. 17:18

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Við fellum þetta þá bara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Og fellum þessa sömu flokka í leiðinni.

Manstu hvað það var gaman síðast?

Guðmundur Ásgeirsson, 11.2.2014 kl. 23:41

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég verð að viðurkenna það að það kemur mér alltaf jafn óþægilega á óvart þegar ég rekst á viðhorf eins og þau að það sé „gaman“ að standa í einhverju eins og því að rísa upp á móti ákvörðunum og/eða stefnu stjórnvalda.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.2.2014 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband